Svart og hvítt

Ég var í sakleysi mínu að horfa á sjónvarpið í afþreyingar herbergi sem finnst heima hjá mér. Inni í þessu herbergi er allskonar afþreying eins og Playstation leikjatölva, bækur, spil, píluspjald og margt fleira.

Ég sat andspænis sjónvarpinu í sófanum og var að borða mexíkóska grýtu á meðan augun gleyptu sjónvarpsefnið. Milli þess sem ég tók bita af matnum þá lá hann á disk sem lá á litlu ferköntuðu borði. Þetta var nýkeypt borð á þessum tíma, hann pabbi minn hafði verið sendur í IKEA ferð til að kaupa svona borð.

Móðir mín hafði ekki séð nýja borðið á þeim tíma sem ég byrjaði að horfa á sjónvarpið, hún kom hinsvegar heim á meðan áhorfinu stóð og sá þá borðið sem pabbi hefði keypt. Þegar mamma sá borðið atvikaðist samtal milli mömmu og pabba sem vakti mikla athygli af minni hálfu. Samtalið var sem eftirfarandi:

            Mamma: Kristinn!

Kristinn er pabbi minn, mamma var sum sé að kalla á pabba minn sem kom eins og kallaður.

            Mamma: Þú tókst vitlaust borð.

            Pabbi: Hvað meinarðu? það eru ekki til mörg borð

            Mamma: Já þér tókst samt að taka vitlaust borð

            Pabbi: Það var bara annaðhvort svart eða hvítt borð.

            Mamma: Já það var til líka svona háglans svart borð en þú tókst svona mattað, þetta             er miklu flottara!

            Pabbi: Af hverju sagðirðu þá að ég hafði tekið vitlaust borð?

            Mamma: Þú tókst vitlaust borð miðað við það sem ég hélt að við ætluðum að taka

            Pabbi: Ég sá bara svart og hvítt...

 

Þetta samtal þótti mér afar merkilegt! Það sem var fyrir pabba svart og hvítt var fyrir mömmu margvísleg og margskipt ákvörðun.

En það áhugaverða í þessu var í raun tvíþætt. Það vakti ekki bara áhuga minn hvernig sama ákvörðun getur verið margþætt fyrir einn en svart og hvítt fyrir annan.

Það sem vakti einnig áhuga minn var sá partur samræðunnar þar sem mamma segir að borðið sem pabbi tók vitlaust hafi verið betra en það sem hann hafði átt að taka. Mér finnst það merkilegt nokk að það sé talin vitlaus ákvörðun að taka betri ákvörðun bara af því það var ekki ákvörðunin sem var upprunalega ætlað að taka.

Sama hvort það sé einhver annar að segja þér að gera eitthvað eða bara þín gamla skoðun þá skaltu ekki leyfa því að halda þér aftur ef þú vilt taka aðra ákvörðun. Ekki vera hræddur um að taka aðra ákvörðun en ætlunin var ef þér finnst hún betri. Kannski kemur það í bakið á þér seinna en kannski reynist það betri ákvörðun, eða kannski bæði, kannski er það ekki svona svart og hvítt.


Við erum skip á ólgandi grænum sjó

Áður en þessi bakþanki telst hafinn þá skal vera tekið fram að í þessum bakþanka verður ekkert gefið eftir þegar kemur að myndhverfingum, viðlíkingum og þess háttar. Þessi bakþanki verður mikið myndmálsrunk, eins og ljóð eftir Bubba Morthens.

Lífið er eins og sjórinn og við erum skipið sem siglir þar um. Við ferðumst með öldunum og vitum ekki hvað næsta bára ber í skauti sér fyrr en hún ber að dyrum. Við förum upp og niður til skiptis.

Við erum misstór skip, allt frá litlum smábátum upp í stór skemmtiferðaskip. Við höfum öll okkar stefnu, einhvern áfangastað. Stundum er auðvelt fyrir okkur að sjá hvert við þurfum að sigla til þess að komast nær þeim stað, stundum er auðvelt að finna hvernig sjórinn ólgar og vindurinn blæs og reikna út í kjölfarið hvernig seglið á að snúa. En stundum er þetta alls ekki svo auðvelt, stundum siglum við og siglum en vitum í raun ekki hvert við stefnum. Stundum vitum við hvert við viljum fara, einhver drauma-áfangastaður, en við vitum ekki hvar sá staður er.

„Viti maður ekki til hvaða hafnar hann siglir, er engin vindátt hagstæð“. Þessum fleygu orðum kastaði rómverski heimspekingurinn Seneca fram úr ermum sér á sínum tíma. Gaman að því.

Ég er alls ekki fyrsti maðurinn til þess að varpa fram myndmáli um lífið og skip, eins og gefið hefur verið til kynna. Heimspekingurinn Seneca setti fram slíkt myndmál í setningunni sem ég lét fylgja fyrir ofan. Einnig hefur slíkt myndmál verið sett fram af rithöfundinum John Augustus Shedd, sem er ekki sami maður og heimspekingurinn John Graves Shedd.

Shedd gaf okkur setninguna; „Skip í höfn er öruggt, en það er ekki það sem skip eru smíðuð fyrir.“

Þetta er góð setning, en ég ætla ekki að staldra við og ígrunda hana nánar. Ég ætla að halda ótrauður áfram eins og lífið sjálf. Lífið tekur enga pásu. Við getum reynt eins og við viljum að setja niður akkeri en sjórinn ólgar alltaf. Sjórinn fleygist áfram og oft erum við í óða önn við það eitt að reyna halda í við hann.

Eins og setningin góða segir; „Lífið ferðast ansi hratt. Ef þú stoppar ekki og lítur í kringum þig öðru hvoru gætirðu misst af því.“

Þetta sagði prakkarinn Ferris Bueller í myndinni Ferris Bueller‘s Day Off. Góð setning.

 

Rétt í lokin á þessum bakþanka, rétt áður en ég hætti að blóðrunka myndmálshvötinni eins og ég fái borgað fyrir það, þá ætla ég að setja fram mína eigin setningu um lífið og skip. Setningu sem hægt er að vitna í næstu ár og aldir líkt og aðrir hafa gert. Mín setning er í lengri kantinum en er svohljóðandi;

Lífið er eins og sjórinn og við erum skipið sem siglir þar um. Við ferðumst upp og niður með öldunum og erum misstór skip, allt frá litlum smábátum upp í stór skemmtiferðaskip. Við ferðumst upp og niður með öldunum og þess vegna er kannski best að vera bara kafbátur.


Lifandi líknardráp

Eins og nafnið gefur eflaust smá til kynna þá verður þessi bakþanki eilítið þunglyndislegur. Eitthvað sem á ensku myndi kallast ‚dark‘. Rétt er að taka fram að þessi skrif fjalla að miklu leiti um sjálfsskaða og gæti það verið ‚triggerandi‘ fyrir suma.

Ég ætla að gefa ykkur smá hugsunartilraun (e. thought experiment). Ýmindaðu þér að þú lifir í heimi þar sem allir hafa takka til að binda enda á líf sitt. Með einum takka deyrðu, þá og þar, friðsamlega og án alls sársauka. Hnappurinn væri einhvern veginn alltaf tengdur við þig, hann væri alltaf til taks og á þinni persónu. Takkinn og allt hans kerfi væri vel aðgengilegt, til dæmis er takkinn á kefli svo það sé hægt að ýta á hann auðveldlega með einum þumalfingri.

Þessi takki, hvernig sem hann lítur í þinni hugsun, er aldrei fyrir en hann birtist í hendinni þinni þegar þú kallar eftir honum með einhverri ákveðinni handahreyfingu. Mikilvægt er að taka fram að þessi takki er ekki það eina sem drepur þig, þú getur ennþá dáið úr elli og þú getur ennþá blætt út eða fengið krabbamein og allt svoleiðis.

Ígrundaðu þennan heim aðeins eins og þetta sé veruleikinn. Hverjar yrðu afleiðingarnar? Hvenær myndir þú ýta á takkann og hvenær ekki? Ég skal bæta smá í þessa hugsunartilraun ef þess skyldi þurfa.

Þú verður fyrir skotárás úti á götu. Þú liggur núna í þínum eigin blóðpolli á köldu malbikinu klukkan hálf fjögur að nóttu til og þú emjar af sársauka. Í þessum aðstæðum og í þessum heimi, hvað gerir þú? Ýtir þú á takkann og endar þjáningar þínar ásamt lífinu þínu eða tekur þú sénsinn á því að fá læknisaðstoð í tækar tíð?

Ef þessi hugsunartilraun er nú þegar ekki að valda heilabrotum, þá ætti þetta að hjálpa;

Ýmindaðu þér að þú ert á mjög dimmum stað andlega og þú hefur verið það í nokkurn tíma. Þunglyndi þitt er í sögulegu hámarki og er þú situr í keng út í horni grátandi, tekur þú takkann þinn, heldur þéttingsfast um hann og íhugar að binda enda á þetta allt saman.

Þú vilt drepa þig. Þú strýkur rauða hnappinum með þumalfingri og kreistir allt í hendinni. Þú byrjar að skjálfa, þumalfingur þinn virðist ekki vilja ýta á hnappinn. Að lokum eftir bardaga líkamans og heilans, þá vinnur líkaminn og þú sleppir takkanum og þú klárar að gráta án þess að vilja ýta á takkann.

Spólum núna aðeins áfram og eftir nokkra mánuði/vikur ertu ánægður, þú ert sáttur. Þú liggur við hliðina á ástinni lífi þínu, þið eruð að kúra. Þér líður vel. Þú vilt líða svona að eilífu. Þú byrjar að brosa. Þér finnst eins og ekkert geti haft neikvæð áhrif á þig, ekkert getur komið þér úr jafnvægi. Þú ert þakklátur fyrir lífið, fyrir þessa ánægjutilfinningu. Þú ert þakklátur fyrir fallegu og mögnuðu konuna sem er við hliðina á þér. Þú ert þakklátur fyrir lífið, fyrir allt. Þú hugsar um lágpunktana sem þú hefur lent í, þú manst hjólförin sem þú varst í fyrir nokkrum mánuðum/vikum.

Þú ert þakklátur fyrir að vera ekki lengur á þessum stað andlega. Þú byrjar að gráta, af hamingju, af ánægju, af þakklæti. Þú ert þakklátur fyrir líf þitt eins og það er og þú vilt aldrei að það breytist, þú vilt ekki eiga á hættu að það versni. Þú tekur upp takkann þinn og heldur honum þétt í hendinni, þú grætur enn og út af sömu ástæðum og áður. Þú ert ekki leiður yfir því að hamingjan sé að fara hætta af því þú ert ánægður með að það hafi gerst. Þú ert þakklátur fyrir að það hafi gerst. Og með þá hugsun í fyrrúmi ýtirðu á takkann. Þú ýtir á takkann og þú deyrð. Þú deyrð, glaður og ánægður maður.

Var það þess virði? Var eitthvað af því þess virði? Hefðir þú átt að halda áfram að lifa? Ættir þú að hafa drepið sjálfan þig á lágpunktinum í lífi þínu eða hefðirðu verið að drepa þig of seint?

 

Þessi hugsunartilraun varð til við mína ígrundun á setningu sem heimspekingurinn Emil Cioran setti fram; „Það er ekki þess virði að nenna að drepa þig þar sem þú drepur þig alltaf of seint.“


Stutt um seiglu

Seigla er dyggð, það er mannkostur. Ekki spurning! Reyndar er ég ekki alltaf mjög hlynntur notkun á orðinu mannkostur þar sem það gefur til kynna að þessir eiginleikar séu einfaldir valkostir. Það má alveg færa rök fyrir því að svo sé en það er önnur heimspekileg umræða, fyrir annan bakþanka.

Það virðist vera einróma skoðun samfélagsins að það að búa yfir seiglu, vera úthaldsgóður, sé kostur. Það að geta enst 12 tíma vinnuvakt er betra og kemur þér lengra í lífinu heldur en að geta bara enst 8 tíma vinnuvakt. Ég ætla að reyna komast hjá því að taka afstöðu gagnvart seiglu, þó þetta hljómi eins og strengjabrúða kapítalistans þá skal ég reyna að kasta fram ólituðum skoðunum um seiglu.

 

Til er þekkt setningin varðandi þrautseigju sem hljóðar svona; að detta niður er óvart en að vera áfram niðri er eigin valkostur. Hún er eflaust þekktari á ensku; Falling down is an accident, staying down is a choice.

Þessi orð eru sönn, að mínu mati. Þessi orð eru sönn en þau segja ekki alla söguna, stunum er þetta ekki alveg raunin, þetta er ekki alltaf svona svart og hvítt. Stundum getur maður ekki staðið upp alveg strax.

Stundum dettur maður ekki niður heldur manni er hrint niður. Stundum er manni hrint niður óvart en stundum er eins og manni sé sparkað niður. Stundum er eins og manni sé sparkað niður og það er haldið áfram að sparka í mann á meðan maður liggur þar á grúfu.

Þetta snýst ekki alltaf um að eyða sem minnstum tíma á jörðinni og mögulegt er. Stundum þarf maður að liggja smávegis á jörðinni og taka við spörkunum, það mun líða hjá. Það má vissulega færa rök fyrir því að seigla er sá eiginleiki að geta staðið upp þrátt fyrir þrotlaus spörk í magann. En það er alls ekki það sem ég á við, ég er ekki að reyna breyta skilgreiningunni á orðinu ‚seigla‘. Vandamál mitt liggur ekki í skilgreiningunni á orðinu, vandamálið mitt er í garð setningarinnar sem ég tók fyrir. Hún gefur til kynna að þú þurfir bara að standa alltaf upp aftur eins fljótt og hægt er af því annars ertu aumingi.

Mér finnst það þurfa að fylgja umræðunni að stundum er manni haldið niðri og hefur því engra kosta völ. Þetta er ekki svona svart og hvítt.


Fullkomin ófullkomnun

Það er ekkert í lífinu fullkomið. Það er ekkert í þessu lífi sem með réttu má teljast fullkomið. Ég, þú, hundurinn minn, húsið þitt, ekkert af þessu er fullkomið. Öll höfum við okkar veikleika og það á líka við um dýr og dauða hluti.

Það er ekkert í lífinu fullkomið, og það er fullkomið.

Þessi skoðun er sameiginleg meðal margra heimspekinga, einn sá þekktasti af þeim er sennilega hinn merki Slavoj Zizek. En það skal ekki taka af því að þessi bakþanki er minn bakþanki og mínar hugsanir um málefnið. Þó ég hafi heyrt og lesið hugsanir Zizek þá tel ég mig alls ekki nógu öruggan í það að segja hvað hann meinar. Þetta er einungis mín túlkun.

Fullkomnun er lygi, uppspuni svo við fáum samhengið. Þetta er mikilvæg lygi, frá þessum lyga kemur ástin. Ef þú ert með fullkomnun þá ertu með óspennandi og óskrifað blað. Ef þú værir fullkominn þá værir þú ekkert spennandi. Það myndi enginn hugsa „Guð minn almáttugur, hann er fullkominn“ heldur myndi fólk sennilega ekki hugsa neitt sérstakt. Það væri ekkert athugavert við þig. Þú værir bara „bleh“.

En þessi blekking um fullkomnun er mikilvæg, líkt og kom fram. Sú blekking að fullkomnun sé möguleg er það sem gerir eitthvað fullkomið. Um leið og við sjáum einhvern sem hefur einhverja veikleika þá hugsum við kannski „hann er næstum því fullkominn“. Við myndum kannski hugsa „Hann væri fullkominn bara ef...“ en það er út af þessu samhengi sem við höfum eftir að hafa blekkt okkur um að fullkomnun sé til.

Þessir veikleikar sem við sjáum eru í raun bara eiginleikar. Þetta eru þeir eiginleikar sem við föllum fyrir þegar við erum hrifin af einhverjum. Við föllum fyrir þeirri ýmind að einhver gæti verið fullkominn. Þetta hljómar kannski ekki vel en þetta er í raun svo fallegt.

Við elskum ekki þrátt fyrir, við elskum afþví. Við elskum ekki þrátt fyrir hina og þessa veikleika heldur elskum við út af hinum og þessum eiginleikum.

Það er ekkert í lífinu fullkomið, og það er fullkomið.


Óður til óhamingjunnar

„Ó hve ljúft væri lífið ef ég einungis myndi finna fyrir gleði og hamingju...“

Þessa setningu hefur sennilega enginn sagt svona háfleyga en margir, ef ekki flestir, hafa einhverntíman óskað eftir minni óhamingju í sitt líf. Jafnvel hafa sumir gengið svo langt að óska sér þess að meiri hamingja kæmi þess í stað, þvílík vitleysa. Merkilegt nokk þá væri uppfylling þeirra óskar skýr ávísun á verra líf, líf í doða. Líf sem inniheldur enga óhamingju hefur enga lífsfyllingu, enga hamingju.

Hamingja og óhamingja eru afstæð hugtök sem miðast fyrst og fremst af hvor öðru. Vissulega er hægt að færa rök fyrir því að hamingja og óhamingja miðast af því sem gerist í lífinu, þ.e.a.s ef eitthvað gott gerist þá kemur hamingjan í kjölfarið og þess háttar, en þessi rök standast ekki nánari athugun:

Ef lífið er eins og herbergi, hvernig veistu hvort það sé hreint og fínt eða skítugt og allt í drasli? Jú þú getur vissulega séð það, en þú nýtur þess ekki að vera í hreinu herbergi fyrr en þú hefur prufað að vera inn í herbergi sem á eftir að taka til í. Þetta herbergi er lífið og allt dótið og draslið eru þær uppákomur í lífinu sem veita þér óhamingju. Þú getur ekki allt þitt líf lifað inni í tandurhreinu herbergi án þess að taka því sem sjálfsögðum hlut. Á sama hátt getur þú ekki lifað allt þitt líf í eintómri hamingju án þess að verða ónæmur, við þurfum óhamingjuna sem viðmið svo við lifum ekki dofin og ónæm fyrir hamingjunni.

Lífið væri ekki skárra óhamingjusnautt, lífið væri ekki skárra en það væri ekkert verra heldur. Ekki þannig að við tökum eftir því allavega. Líf þar sem óhamingja kemur aldrei fyrir hefur ekki séns á því að innihalda hamingju, það væri aldrei góð né slæm stund heldur væri lífið bara flatt og óspennandi. Þannig líf er vissulega verra heldur en líf þar sem hamingja og óhamingja koma upp til skiptis.

Þannig næst þegar þú upplifar þá stund þar sem þú finnur fyrir óhamingju í lífinu skaltu bara muna að lífið fer í hring, ef það er óhamingju þá máttu bóka það að næst kemur upp hamingja. Glöggir lesendur hafa þó kannski áttað sig á því að hið sama gildir aftur á bak; Ef þú finnur fyrir hamingju getur þú verið viss um að innan skamms kemur óhamingjan aftur... En það verður víst að hafa það.


Tungumál ljóðanna

Ég var í miðjum leiklistartíma í Framhaldsskólanum í Garðabæ þegar við fengum það heimaverkefni í hendurnar að skrifa ljóð, bæði reglubundið og óformlegt. Til útskýringar þá ber þessi leiklistaráfangi undirtitilinn Skapandi Skrif og eins og nafnið ber til kynna þá lærum við skapandi skrif í þessum áfanga. Við lærum ýmiskonar rithátt sem tengist sköpun, til að mynda lærum við að skrifa smásögu, örsögu, pistla, bakþanka líkt og þennan og við lærum að skrifa ljóð. Ég legg samt sem áður áherslu á að þessi áfangi flokkast sem leiklistaráfangi.

Í þessum Skapandi Skrif tíma uppskar kennarinn mikið umtal um komandi verkefni, að skrifa ljóð. Margir áttu við spurningum engin svör og beindu þar af leiðandi flest öllum spurningum á borð kennarans. Í gegnum kliður og spjall mátti heyra kennarann svara öllum þeim spurningum sem voru gólaðar og gaspraðar í átt kennarans. Ein spurning vakti þó athygli frekar en aðrar, eða réttara sagt þá rak ég upp stór augu við svari kennarans sem kom í kjölfarið. Þessi spurning var svo hljóðandi; „Má skrifa ljóðið á ensku?“ og kennarinn svaraði um hæl „Nei, þú ferð bara í enskuáfanga ef þú villt skrifa á ensku.“

Versta við þetta fannst mér vera að þessi áfangi er ekki íslenskuáfangi. Eins og tekið var fram í upphaf þessa bakþanka þá er Skapandi Skrif áfanginn leiklistaráfangi. Ef þetta er hvorki íslensku- né enskuáfangi, af hverju skiptir tungumálið þá máli á þessum forsendum sem kennarinn gaf upp?

Vitaskuld á kennarinn að efla notkun á íslenskri tungu og hvetja krakkana til þess að mæla á móðurmáli sínu, en að alfarið banna ensk orð finnst mér alveg út í hött. Það á að vera listræn ákvörðun réttur hvers og eins ljóðahöfunda að á ákvarða nákvæmlega hvaða orð á að skrifa og hvernig á að skrifa það. Ljóð á að vekja upp tilfinningar, fá fólk til þess að tengja. Ljóð eiga að vera í fáeinum orðum, þær hugsanir sem við höfum hugsað en gátum ekki sett í orð. Ef til vill þá getur höfundur ljóðsins vel ýmindað sér að hafa allt ljóðið á ensku nema síðustu línuna til þess að ljóðið hafi einhver ákveðin áhrif á lesandann. Að gefa tilvonandi ljóðahöfundum ekki tækifæri á því að fá fullt listrænt vald á eigin ljóði er að mínu mati eins og segja má á góðri íslensku; Fucking bullshit!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband