Stutt um seiglu

Seigla er dyggð, það er mannkostur. Ekki spurning! Reyndar er ég ekki alltaf mjög hlynntur notkun á orðinu mannkostur þar sem það gefur til kynna að þessir eiginleikar séu einfaldir valkostir. Það má alveg færa rök fyrir því að svo sé en það er önnur heimspekileg umræða, fyrir annan bakþanka.

Það virðist vera einróma skoðun samfélagsins að það að búa yfir seiglu, vera úthaldsgóður, sé kostur. Það að geta enst 12 tíma vinnuvakt er betra og kemur þér lengra í lífinu heldur en að geta bara enst 8 tíma vinnuvakt. Ég ætla að reyna komast hjá því að taka afstöðu gagnvart seiglu, þó þetta hljómi eins og strengjabrúða kapítalistans þá skal ég reyna að kasta fram ólituðum skoðunum um seiglu.

 

Til er þekkt setningin varðandi þrautseigju sem hljóðar svona; að detta niður er óvart en að vera áfram niðri er eigin valkostur. Hún er eflaust þekktari á ensku; Falling down is an accident, staying down is a choice.

Þessi orð eru sönn, að mínu mati. Þessi orð eru sönn en þau segja ekki alla söguna, stunum er þetta ekki alveg raunin, þetta er ekki alltaf svona svart og hvítt. Stundum getur maður ekki staðið upp alveg strax.

Stundum dettur maður ekki niður heldur manni er hrint niður. Stundum er manni hrint niður óvart en stundum er eins og manni sé sparkað niður. Stundum er eins og manni sé sparkað niður og það er haldið áfram að sparka í mann á meðan maður liggur þar á grúfu.

Þetta snýst ekki alltaf um að eyða sem minnstum tíma á jörðinni og mögulegt er. Stundum þarf maður að liggja smávegis á jörðinni og taka við spörkunum, það mun líða hjá. Það má vissulega færa rök fyrir því að seigla er sá eiginleiki að geta staðið upp þrátt fyrir þrotlaus spörk í magann. En það er alls ekki það sem ég á við, ég er ekki að reyna breyta skilgreiningunni á orðinu ‚seigla‘. Vandamál mitt liggur ekki í skilgreiningunni á orðinu, vandamálið mitt er í garð setningarinnar sem ég tók fyrir. Hún gefur til kynna að þú þurfir bara að standa alltaf upp aftur eins fljótt og hægt er af því annars ertu aumingi.

Mér finnst það þurfa að fylgja umræðunni að stundum er manni haldið niðri og hefur því engra kosta völ. Þetta er ekki svona svart og hvítt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband