Óður til óhamingjunnar

„Ó hve ljúft væri lífið ef ég einungis myndi finna fyrir gleði og hamingju...“

Þessa setningu hefur sennilega enginn sagt svona háfleyga en margir, ef ekki flestir, hafa einhverntíman óskað eftir minni óhamingju í sitt líf. Jafnvel hafa sumir gengið svo langt að óska sér þess að meiri hamingja kæmi þess í stað, þvílík vitleysa. Merkilegt nokk þá væri uppfylling þeirra óskar skýr ávísun á verra líf, líf í doða. Líf sem inniheldur enga óhamingju hefur enga lífsfyllingu, enga hamingju.

Hamingja og óhamingja eru afstæð hugtök sem miðast fyrst og fremst af hvor öðru. Vissulega er hægt að færa rök fyrir því að hamingja og óhamingja miðast af því sem gerist í lífinu, þ.e.a.s ef eitthvað gott gerist þá kemur hamingjan í kjölfarið og þess háttar, en þessi rök standast ekki nánari athugun:

Ef lífið er eins og herbergi, hvernig veistu hvort það sé hreint og fínt eða skítugt og allt í drasli? Jú þú getur vissulega séð það, en þú nýtur þess ekki að vera í hreinu herbergi fyrr en þú hefur prufað að vera inn í herbergi sem á eftir að taka til í. Þetta herbergi er lífið og allt dótið og draslið eru þær uppákomur í lífinu sem veita þér óhamingju. Þú getur ekki allt þitt líf lifað inni í tandurhreinu herbergi án þess að taka því sem sjálfsögðum hlut. Á sama hátt getur þú ekki lifað allt þitt líf í eintómri hamingju án þess að verða ónæmur, við þurfum óhamingjuna sem viðmið svo við lifum ekki dofin og ónæm fyrir hamingjunni.

Lífið væri ekki skárra óhamingjusnautt, lífið væri ekki skárra en það væri ekkert verra heldur. Ekki þannig að við tökum eftir því allavega. Líf þar sem óhamingja kemur aldrei fyrir hefur ekki séns á því að innihalda hamingju, það væri aldrei góð né slæm stund heldur væri lífið bara flatt og óspennandi. Þannig líf er vissulega verra heldur en líf þar sem hamingja og óhamingja koma upp til skiptis.

Þannig næst þegar þú upplifar þá stund þar sem þú finnur fyrir óhamingju í lífinu skaltu bara muna að lífið fer í hring, ef það er óhamingju þá máttu bóka það að næst kemur upp hamingja. Glöggir lesendur hafa þó kannski áttað sig á því að hið sama gildir aftur á bak; Ef þú finnur fyrir hamingju getur þú verið viss um að innan skamms kemur óhamingjan aftur... En það verður víst að hafa það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband